Mílan missti unninn leik niður í jafntefli þegar Þróttur kom í heimsókn í Vallaskóla í 1. deild karla í handbolta í kvöld. Á sama tíma vann Selfoss stórsigur á ÍH.
Leikur Mílunnar og Þróttar var stórskemmtilegur en liðin eru að berjast í 4. og 5. sæti deildarinnar, sem bæði eru umspilssæti. Jafnt var á öllum tölum upp í 10-10 eftir nítján mínútna leik en þá skoraði Mílan tvö mörk í röð og náði svo þriggja marka forskoti fyrir hálfleik, 16-13.
Þróttarar mættu ákveðnir til síðari hálfleiks og jöfnuðu fljótlega, 17-17. Staðan var 20-20 þegar fjörutíu mínútur voru liðnar en í kjölfarið náði Mílan þriggja marka forskoti, 24-21, og leiddi með tveggja marka mun allt fram á lokakaflann. Þróttur jafnaði 27-27 þegar fimm mínútur voru eftir en Mílan náði af harðfylgi að komast aftur tveimur mörkum yfir. Gestirnir skoruðu hins vegar tvö síðustu mörk leiksins og jöfnuðu 29-29 þegar þrjár sekúndur voru eftir. Stórmeistarajafntefli.
Magnús Øder Einarsson og Egidijus Mikalonis léku sinn fyrsta leik fyrir Míluna í kvöld en þeir komu báðir til liðsins frá Selfossi. Þeir voru öflugustu leikmenn liðsins í sókninni, Magnús var markahæstur með 10 mörk og Egidijus skoraði 7. Árni Felix Gíslason skoraði 5/2 mörk, Sigurður Már Guðmundsson 4, Magnús Már Magnússon 2 og Ingvi Tryggvason 1. Ástgeir Sigmarsson varði 14/1 skot í marki Mílunnar.
Köttur og mús í Hafnarfirði
Selfoss sótti ÍH heim í Hafnarfjörð og þar urðu áhorfendur vitni að leik kattarins að músinni. Selfoss komst í 2-6 í upphafi leiks og leiddi 6-14 eftir rúmar 20 mínútur. Staðan var 12-19 í hálfleik. Selfyssingar juku forskotið jafnt og þétt allan síðari hálfleikinn og sigurinn var aldrei í hættu. Adam Örn Sveinbjörnsson skoraði síðasta mark Selfoss af vítapunktinum, sitt fyrsta fyrir félagið, á lokasekúndunum og tryggði Selfossi 23-38 sigur.
Andri Már Sveinsson var markahæstur Selfyssinga með 12/7 mörk, Atli Kristinsson, Sverrir Pálsson og Alexander Egan skoruðu allir 4 mörk, Eyvindur Hrannar Gunnarsson, Elvar Örn Jónsson og Guðjón Jónsson 3, Árni Geir Hilmarsson og Gunnar Páll Júlíusson 2, Örn Þrastarson 1 og Adam Örn Sveinbjörnsson 1/1. Helgi Hlynsson varði 16/1 skot í marki Selfoss.
Eftir leiki kvöldsins er Selfoss í 3. sæti með 22 stig, eins og Fjölnir sem er í 2. sætinu. Þróttur hefur 14 stig í 4. sæti og Mílan 11 stig í 5. sæti.