Keppni í 1. deild karla í handbolta lauk í kvöld og nú tekur úrslitakeppnin við. Mílan og Selfoss unnu bæði stórsigra í lokaumferðinni.
Mílan heimsótti ÍH í Kaplakrika og þar tóku þeir grænu leikinn strax í sínar hendur. Mílan komst í 3-8 um miðjan fyrri hálfleik og munurinn varð mestur sex mörk, 8-14, en ÍH minnkaði muninn í 12-16 fyrir leikhlé.
Munurinn hélst svipaður fram í miðjan síðari hálfleik en þá bætti Mílan í og jók muninn í níu mörk á lokakaflanum. Lokatölur 22-31.
Atli Kristinsson var markahæstur hjá Mílan með 10 mörk, Örn Þrastarson skoraði 9/3, Ívar Grétarsson 4, Óskar Kúld 3, Eyþór Jónsson 2 og þeir Ársæll Ársælsson, Ketill Hauksson og Aron Valur Leifsson skoruðu allir 1 mark.
Sverrir Andrésson varði 17 skot í marki Mílan og var með 47% markvörslu og Ástgeir Sigmarsson varði 5 skot og var með 62,5% markvörslu.
Selfoss mætir Fjölni í umspilinu
Selfoss fékk Þrótt í heimsókn og þar var það sama uppi á teningnum. Selfyssingar tóku leikinn strax í sínar hendur, komust í 5-0 og 14-5 en staðan var 18-10 í hálfleik.
Þróttur skoraði fyrstu þrjú mörkin í síðari hálfleik en þá tóku Selfyssingar aftur við sér. Undir lok leiksins gerðu Selfyssingar síðan 8-1 áhlaup og sigruðu að lokum með fjórtán marka mun, 38-24.
Á sama tíma sigraði Fjölnir KR og tryggði sér 3. sætið þannig að Fjölnir fær heimaleikjarétt gegn Selfossi í úrslitakeppninni.
Sverrir Pálsson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk, Matthías Halldórsson skoraði 5, Ómar Helgason og Jóhannes Erlingsson 4, Hergeir Grímsson, Egidijus Mikalonis og Árni Guðmundsson 3, Guðjón Ágústsson, Alexander Egan og Árni Geir Hilmarsson 2 og Gunnar Páll Júlíusson og Jóhannes Snær Eiríksson 1 hvor.
Helgi Hlynsson varði 26/1 skot og var með 52% markvörslu.
Fyrsti leikur Selfoss og Fjölnis í umspilinu verður þann 10. apríl í Grafarvogi.