Mílan er úr leik í bikarkeppni karla í handbolta og Selfoss úr leik í bikarkeppni kvenna eftir tvíhöfða í Iðu á Selfossi í kvöld.
Fyrri leikur kvöldsins var leikur utandeildarliðs Mílan gegn 1. deildarliði Fjölnis. Leikurinn var spennandi í fyrri hálfleik en staðan var 15-17 í leikhléi. Seinni hálfleikur var jafn fyrstu tíu mínúturnar en þá þvarr kraftur Mílanmanna og eftirleikurinn var nokkuð auðveldur fyrir Fjölni sem sigraði að lokum, 23-35.
Hörður Másson var markahæstur Mílanmanna með 8 mörk, Atli Kristinsson skoraði 6, Atli Hjörvar Einarsson, Eyþór Jónsson og Trausti Elvar Magnússon 2 og þeir Einar Sindri Ólafsson, Aron Tjörvi Gunnlaugsson og Sævar Ingi Eiðsson skoruðu allir 1 mark.
Allt í járnum hjá Selfyssingum
Í seinni leiknum mætti svo kvennalið Selfoss FH í hörkuleik. Staðan var 8-8 í leikhléi en gestirnir reyndust sterkari í seinni hálfleik og sigruðu að lokum, 17-20.
Roberta Stropus skoraði 8 mörk fyrir Selfoss, Tinna Sigurrós Traustadóttir 5 og þær Rakel Hlynsdóttir, Emilía Ýr Kjartansdóttir, Hafdís Alda Hafdal og Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir skoruðu allar 1 mark.
Mina Mandic varði 10 skot í marki Selfoss og var með 46% markvörslu og Dröfn Sveinsdóttir varði 2 skot og var með 22% markvörslu.
UPPFÆRT 11/9 kl. 12:00