Á föstudaginn 23. september klukkan 19:30 spilar ÍF. Mílan sinn fyrsta heimaleik í 1. deild karla í handbolta gegn Hömrunum frá Akureyri. Það kostar aðeins 1.000 kr. inn á leikinn sem renna beint í styrktarsjóð fyrir Ágústu Örnu.
Ágústa Arna lamaðist frá brjósti þegar hún féll niður um op á neyðarútgangi á þriðju hæð á Selfossi í ágúst. Hún slasaðist mjög illa og var á gjörgæslu í rúma viku eftir slysið, en er nú útskrifuð þaðan og komin á endurhæfingardeild á Grensási þar sem hún heldur endurhæfingunni áfram.
Þessi barátta sem framundan er hjá Ágústu verður gríðarlega erfið líkamlega, andlega og því miður ekki síst fjárhagslega. Þess vegna er vilji til þess að aðstoða hana og fjölskyldu hennar þannig að óþarfa fjárhagsáhyggjur bætist ekki við.
Fimmtudagskvöldið 6. október verður haldið styrktarkvöld í Hótel Selfossi og fer allt söfnunarfé beint til Ágústu Örnu. Þar munu Páll Óskar, Ari Eldjárn, Hreimur Örn, Á móti sól, Kiriyama family, Stuðlabandið, Karitas Harpa og fleiri koma fram.
Einnig er uppboð í gangi frá að styrktarkvöldi þar sem hægt er að bjóða í keppnistreyjur, málverk, ævintýraferðir og hótel gistingu á Suðurlandi svo eitthvað sé nefnt. Upplýsingar um hlutina má finna á Facebook-síðunni Fyrir Ágústu, og svo er hægt að bjóða í hlutina með því að senda póst á styrktarkvold@gmail.com.
Fólk getur einnig lagt inn á styrktarreikninginn sem var opnaður í nafni Ágústu. Reikningsnúmerið er 0325-13-110203 og er kennitala hennar 270486-3209. Nú er einnig hægt að borga í gegnum síma með forritum sem bjóða upp á þann möguleika, númerið er 760-7576.
Leikmenn og aðstandendur Mílunnar hvetja alla til þess að fjölmenna á leikinn á föstudagskvöld og styrkja Ágústu Örnu um leið.