Mílan heldur uppteknum hætti í 1. deild karla í handbolta en liðið tapaði fyrir ungmennaliði Vals þegar liðin mættust í Vallaskóla í kvöld.
Fyrri hálfleikur var hnífjafn og staðan að honum loknum var 11-11. Valsmenn byrjuðu betur í seinni hálfleik og voru komnir með fjögurra marka forskot um hann miðjan, 14-18. Sóknarleikur Mílunnar var ekki að ganga upp og heimamönnum tókst ekki að minnka muninn. Forskot Valsmanna jókst enn frekar og var sjö mörk í lokin, 17-24.
Atli Kristinsson skoraði 6 mörk fyrir Míluna, Birgir Örn Harðarson 4, Magnús Már Magnússon og Gísli Frank Olgeirsson 3 og þeir Eyþór Jónsson, Einar Sindri Ólafsson og Leifur Örn Leifsson skoruðu allir 1 mark. Sverrir Andrésson varði 10 skot og Hermann Guðmundsson 5.
Mílan er á botni 1. deildarinnar með 3 stig.