Mílan tapaði í hörkuleik

ÍF Mílan heimsótti KR í 1. deild karla í handbolta í kvöld. Leikurinn einkenndist af gríðarlegri baráttu á báða bóga en KR hafði undirtökin lengst af og sigraði 30-27.

KR-ingar höfðu frumkvæðið í fyrri hálfleik, leiddu 5-1 eftir tíu mínútur en Mílan náði að jafna 8-8. Þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik var staðan 10-9, KR í vil en Mílan jafnaði fyrir hálfleik, 13-13.

Seinni hálfleikur var í járnum framan af en um miðjan hálfleikinn skriðu KR-ingar framúr og héldu forskotinu út leikinn. Lokatölur 30-27.

Atli Kristinsson var markahæstur í liði Mílan með 11 mörk. Magnús Már Magnússon 5, Óskar Kúld 3, Árni Felix Gíslason, Rúnar Hjálmarsson og Eyvindur Hrannar Gunnarsson skoruðu allir 2 mörk og þeir Róbert Daði Heimisson og Eyþór Jónsson skoruðu sitt markið hvor.

Ástgeir Sigmarsson varði 15 skot og var með 40,5% markvörslu og Stefán Ármann Þórðarson varði 4 skot og var með 33% markvörslu.

Samkvæmt heimildum sunnlenska.is hvíldi Mílan marga menn í kvöld fyrir stórleikinn á þriðjudaginn en þá mætir ÍF Mílan Selfyssingum á erfiðasta útivelli landsins og lofa þar æsispennandi leik.

Fyrri greinEins stigs sigur á Ísafirði
Næsta greinÞórsarar byrja vel