ÍF Mílan velgdi toppliði Gróttu rækilega undir uggum þegar liðin mættust í 1. deild karla í handbolta á Selfossi í kvöld. Leikurinn var í járnum allt þar til tíu mínútur voru eftir en þá stungu Gróttumenn af.
Það var mikið fjör í fyrri hálfleik þar sem Mílan spilaði góða vörn og Ástgeir Sigmarsson fór á kostum í markinu. Gróttumenn áttu líka í mestu vandræðum með að stöðva Atla Kristinsson en hann skoraði níu mörk í fyrr hálfleik þrátt fyrir að hafa verið tekinn úr umferð hluta leiks.
Mílan komst í 4-3 en Grótta svaraði með þremur mörkum í röð, 4-6. Milan jafnaði 6-6 og eftir það var jafnt á öllum tölum fram að hálfleik. Grótta jafnaði 11-11 þegar nokkrar sekúndur voru eftir af fyrri hálfleik en Eyvindur Hrannar Gunnarsson tryggði Milan 12-11 forystu í hálfleik með frábæru marki þegar ein sekúnda var eftir. Gróttumenn gengu brjálaðir til búningsherbergjanna á meðan Mílan fagnaði sigri í fyrri hálfleik.
Mílan náði tveggja marka forskoti í upphafi síðari hálfleiks og í kjölfarið misnotuðu Gróttumenn hverja sóknina á fætur annarri á klaufalegan hátt. Mílan hélt áfram að skora og eftir átta mínútur í síðari hálfleik voru heimamenn komnir með fjögurra marka forskot, 18-14. Þá keyrðu Gróttumenn upp hraðann og svöruðu með sex mörkum í röð, 18-20. Milan jafnaði 20-20 en þá var bensínið búið á tanknum hjá þeim grænu. Grótta tvíefldist í sókninni og breytti stöðunni í 21-31 á skömmum tíma. Mílan átti þó ás upp í erminni því Birgir Örn Harðarson, formaður félagsins, kom inná þegar fimm mínútur voru eftir en þrátt fyrir það náði Mílan ekki að minnka muninn. Birgir Örn stóð þó fyrir sínu og skoraði eitt mark af vítalínunni. Lokatölur urðu 23-34.
Atli var markahæstur hjá Mílan með 11/1 mörk, Eyvindur Hrannar skoraði 7, Gísli Guðjónsson, Árni Felix Gíslason, Viðar Ingólfsson og Magnús Már Magnússon 1 og Birgir Örn 1/1.
Ástgeir varði 11 skot í kvöld, þar af níu í fyrri hálfleik.