Mílan er úr leik í bikarkeppni karla í handbolta eftir tap gegn 1. deildarliði Fjölnis í Vallaskóla í kvöld, 22-27.
Fjölnir skoraði fjögur fyrstu mörk leiksins og munurinn hélst í fjórum til sex mörkum allan fyrri hálfleikinn. Sóknarleikur Mílunnar var stirður og hraðaupphlaup og hraðar sóknir Fjölnismanna voru árangursríkar. Staðan var 7-13 í hálfleik.
Gestirnir bættu í í upphafi síðari hálfleiks og náðu níu marka forskoti, 12-21 þegar tíu mínútur voru liðnar. Þá spörkuðu Mílanmenn í klárinn, án þess þó að ógna Fjölni, og að lokum skildu fimm mörk liðin að 22-27.
Sævar Ingi Eiðsson var markahæstur hjá Mílunni með 5 mörk, Magnús Már Magnússon skoraði 4, Árni Felix Gíslason 4/2, Gunnar Ingi Jónsson, Gunnar Páll Júlíusson, Viðar Ingólfsson og Ingvi Tryggvason skoruðu allir 2 mörk og Jóhannes Snær Eiríksson 1.
Ástgeir Sigmarsson varði 8 skot í marki Mílunnar og var með 35% markvörslu og Sverrir Andrésson varði 6 skot og var með 33% markvörslu.