Leikmenn Mílan komu gestum íþróttahúss Vallaskóla í sannkallað jólaskap í kvöld þegar liðið tapaði 26-31 fyrir geysisterku liði Víkinga í 1. deild karla í handbolta.
Það er næsta víst að Bjúgnakrækir gefur Guðmundi Garðari Sigfússyni, leikmanni Mílan, kartöflu í skóinn í nótt en Guðmundur fékk beint rautt spjald snemma leiks fyrir að brjóta á hornamanni Víkinga. Það sýndi sig að brottvísun Guðmundar var áfall fyrir Mílan því gestirnir komust yfir í kjölfarið, 3-7.
Víkingar komust strax yfir aftur og við tóku spennandi mínútur þar sem gestirnir leiddu með einu til tveimur mörkum. Þegar leið að lokum fylltust liðsmenn Mílan hinum sanna jólaanda og sýndu að sælla er að gefa en þiggja. Víkingar gengu á lagið, gerðu 1-4 áhlaup á síðustu fimm mínútunum og unnu að lokum 26-31.
Atli Kristinsson var markahæstur í liði Mílan með 10/1 mörk, Rúnar Hjálmarsson átti afbragðsleik með 8/1 mörk, Óskar Kúld Pétursson og Magnús Már Magnússon skoruðu 3 mörk og þeir Eyþór Jónsson og Aron Valur Leifsson 1 mark hvor.
Ástgeir Sigmarsson varði 6/1 skot í marki Mílan og var með 20% markvörslu og Víðir Freyr Guðmundsson varði 4 skot og var með 36% markvörslu.
Mílan er í 8. sæti 1. deildar með 5 stig en Víkingar í 2. sæti með 22 stig.