Mílan varð undir á heimavelli

Stigasöfnun Mílunnar í 1. deild karla í handbolta gengur illa en í kvöld varð liðið undir þegar Valur U kom í heimsókn í Vallaskóla, 23-31.

Gestirnir voru skrefinu á undan allan leikinn og náðu að slíta sig vel frá Mílunni um miðjan fyrri hálfleikinn. Staðan var 10-16 í leikhléi.

Í síðari hálfleik gekk hvorki né rak hjá Mílunni og Valur U náði mest ellefu marka forskoti, 15-26.

Það var fátt sem gladdi augað hjá Mílunni í síðari hálfleik fyrir utan frábæra frammistöðu Birgis Arnar Harðarsonar, forseta Mílunnar, á vítalínunni. Hann raðaði inn vítaskotunum á lokakaflanum og í eina skiptið sem hann klikkaði náði hann frákastinu og skoraði.

Göfugmennska Birgis kom svo í ljós á lokasekúndunni þegar hann afþakkaði titilinn „næstmarkahæsti leikmaður Mílunnar í leiknum“ og leyfði Hermanni Guðmundssyni, markverði, að taka síðasta vítaskot leiksins.

Egidijus Mikalonis var markahæstur hjá Mílunni með 7 mörk, Sævar Ingi Eiðsson skoraði 4, Birgir Örn Harðarson 4/3, Gunnar Páll Júlíusson og Kristinn Ingólfsson 2 og þeir Sigurður Már Guðmundsson, Ketill Hauksson og Gísli Olgeirsson skoruðu allir 1 mark og Hermann Guðmundsson 1/1.

Hermann varði 10/1 skot í marki Mílunnar og Sebastian Alexandersson birtist óvænt og varði 8 skot.

Mílan er nú í 10. sæti deildarinnar með 3 stig.

Fyrri greinBorgarafundur í Suðurkjördæmi
Næsta greinÞór vann í háspennuleik