Mjaltavélin hrökk í gang í seinni hálfleik þegar Selfoss fékk ÍR í heimsókn í Olís-deild karla í handbolta í kvöld. Lokatölur urðu 32-26.
„Þetta var alveg eins og ég átti von á. ÍR-ingarnir börðust grimmilega og leikurinn var jafn framan af. Sóknarleikurinn var dálítið stirður í fyrri hálfleiknum en við héldum okkar kerfi í seinni hálfleiknum og það virkaði betur þá. Mínir strákar eru í toppstandi og við getum hlaupið mikið. Vörnin var fín hjá okkur allan leikinn en markvarslan ekki nægilega sterk og við þurfum að vinna með það,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Jafnt var á öllum tölum fyrstu tuttugu mínúturnar en þá tóku ÍR-ingar frumkvæðið í skamma stund og náðu tveggja marka forskoti. Selfyssingar svöruðu hins vegar fljótt fyrir sig og jöfnuðu 11-11 fyrir leikhlé.
Í upphafi síðari hálfleiks gerðu Selfyssingar síðan út um leikinn og náðu fljótlega góðu forskoti sem þeir vörðu svo til leiksloka, og gott betur en það því munurinn jókst á lokakaflanum.
Teitur Örn Einarsson var markahæstur Selfyssinga með 10/4 mörk, Elvar Örn Jónsson skoraði 7, Atli Ævar Ingólfsson og Haukur Þrastarson 5, Sverrir Pálsson 3 og þeir Guðjón Baldur Ómarsson og Hergeir Grímsson skoruðu 1 mark hvor.
Markverðir Selfoss voru ekki að finna sig í kvöld en Sölvi Ólafsson og Helgi Hlynsson vörðu báðir 3 skot og Anadin Suljakovic 1.