Ákveðið hefur verið að Íslandsmótið í Fischer Random skák, svokallaðri slembiskák, fari fram á Selfossi í mars á næsta ári.
Vegna sögulegra tengsla heimsmeistarans Bobby Fischer við Selfoss hefur stjórn Skákfélags Selfoss og nágrennis (SSON) ákveðið, í samvinnu við Skáksamband Íslands, að heiðra minningu hans með því að halda Íslandsmótið á Selfossi.
Sem kunnugt er þá var Fischer jarðaður í Laugardælakirkjugarði eftir að hann lést á 64. aldursári, 17. janúar 2008.
Að sögn Magnúsar Matthíassonar, formanns SSON, er stefnt að því að efna til mikillar skákhátíðar á Selfossi og hefur skákfélagið verið í viðræðum við bæjarstjórn Árborgar um stuðning við verkið. ,,Með þessu vonumst við til að tengja minningu Fischers betur við Selfoss,” segir Magnús.