Minningarmót um Fischer á næsta ári

Ákveðið hefur verið að Íslandsmótið í Fischer Random skák, svokallaðri slembiskák, fari fram á Selfossi í mars á næsta ári.

Vegna sögulegra tengsla heimsmeistarans Bobby Fischer við Selfoss hefur stjórn Skákfélags Selfoss og nágrennis (SSON) ákveðið, í samvinnu við Skáksamband Íslands, að heiðra minningu hans með því að halda Íslandsmótið á Selfossi.

Sem kunnugt er þá var Fischer jarðaður í Laugardælakirkjugarði eftir að hann lést á 64. aldursári, 17. janúar 2008.

Að sögn Magnúsar Matthíassonar, formanns SSON, er stefnt að því að efna til mikillar skákhátíðar á Selfossi og hefur skákfélagið verið í viðræðum við bæjarstjórn Árborgar um stuðning við verkið. ,,Með þessu vonumst við til að tengja minningu Fischers betur við Selfoss,” segir Magnús.

Fyrri greinVilja skoða minni Ölfusárvirkjun
Næsta greinEndurbætt safnaðarheimili tekið í notkun