Misjafnt gengi Sunnlendinga suður með sjó

Sesar Örn Harðarson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss og Ægir léku bæði á útivelli suður með sjó í kvöld í 2. deild karla í knattspyrnu. Selfoss gegn Reyni í Sandgerði en Ægir gegn Þrótti í Vogum.

Selfyssingar voru sterkari í leiknum gegn Reyni en tókst ekki að finna netmöskvana í fyrri hálfleiknum. Það breyttist þó fljótlega í seinni hálfleik. Á 55. mínútu átti Alexander Vokes fyrirgjöf frá vinstri sem varnarmaður Reynis skallaði í netið. Mínútu síðar vann svo frændi hans, Aron Vokes, boltann af Reynismanni, geystist upp að markinu og skoraði. Á eftir fylgdu mörk frá Sesari Harðarsyni og Gonzalo Zamorano en Reynir skoraði sárabótarmark undir lokin og úrslit leiksins urðu 1-4.

Ægismenn sóttu ekki gull í greipar Þróttara í Vogunum. Heimamenn komust yfir á 34. mínútu og staðan var 1-0 í hálfleik. Seinni hálfleikurinn var í járnum allt þar til rúmar tíu mínútur voru eftir að Þróttarar skoruðu tvö mörk með stuttu millibili og tryggðu sér 3-0 sigur.

Selfoss er áfram með gott forskot á toppi deildarinnar, 38 stig en Ægismenn sigla nokkuð lygnan sjó í 8. sætinu með 18 stig.

Fyrri greinSelfoss vann yfirburðasigur á héraðsmótinu
Næsta greinOpið fyrir umsóknir í Uppbyggingarsjóð Suðurlands