Misjafnt gengi sunnlensku liðanna

Jose Medina var sterkur í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar vann góðan heimasigur á Skallagrím í 1. deild karla í körfubolta í kvöld á meðan Selfyssingar töpuðu gegn Sindra.

Hvergerðingar mættu vel stemmdir til leiks í Frystikistunni í kvöld og höfðu leikinn í höndum sér í fyrri hálfleik. Staðan í leikhléi var 59-37. Í 3. leikhluta lágu allar varnir niðri og liðin röðuðu niður stigunum. Forskot Hamars var þó aldrei í hættu og snemma í 4. leikhluta var staðan orðin 96-65. Munurinn hélst sá sami til leiksloka og lokatölur urðu 104-83.

Jaeden King var stigahæstur Hamarsmanna með 25 stig en Jose Medina var framlagshæstur með 22 stig og 17 stoðsendingar.

Það gekk ekki jafn smurt hjá Selfyssingum sem fengu Sindra í heimsókn. Leikurinn var lengst af í járnum og liðin skiptust á um að gera áhlaup. Staðan í hálfleik var 62-51, Selfyssingum í vil. Sindramenn reyndust hins vegar sterkari í seinni hálfleik. Þeir jöfnuðu 86-86 með síðustu körfu 3. leikhluta og hófu 4. leikhluta á 2-12 áhlaupi. Þar gerðu þeir út um leikinn því Selfoss náði ekki að svara fyrir sig á lokamínútunu. Leiknum lauk með 106-114 sigri gestanna.

Ari Hrannar Bjarmason var stigahæstur Selfyssinga með 29 stig og Follie Bogan skoraði 26 stig, sendi 8 stoðsendingar og tók 7 fráköst. Vojtéch Novák skoraði 21 stig og Tristan Máni Morthens 18.

Hamar er í 3. sæti deildarinnar með 14 stig en Selfyssingar eru á botninum, í 12. sæti með 4 stig.

Hamar-Skallagrímur 104-83 (28-15, 31-22, 32-27, 13-19)
Tölfræði Hamars: Jaeden King 25, Jose Medina 22/4 fráköst/17 stoðsendingar, Fotios Lampropoulos 15/11 fráköst/3 varin skot, Björn Ásgeir Ásgeirsson 14, Lúkas Aron Stefánsson 14/10 fráköst, Ragnar Nathanaelsson 9/8 fráköst, Egill Þór Friðriksson 3, Daníel Sigmar Kristjánsson 2/5 fráköst.

Selfoss-Sindri 106-114 (30-30, 32-21, 24-35, 20-28)
Tölfræði Selfoss: Ari Hrannar Bjarmason 29/6 fráköst, Follie Bogan 26/7 fráköst/8 stoðsendingar, Vojtéch Novák 21/5 fráköst/6 stoðsendingar, Tristan Máni Morthens 18/4 fráköst, Skarphéðinn Árni Þorbergsson 10/5 stoðsendingar, Arnór Bjarki Eyþórsson 2, Ísak Júlíus Perdue 5 fráköst.

Fyrri greinSjö umferðaróhöpp í vikunni
Næsta greinVörnin small á besta tíma