Hamar/Þór varð af mikilvægum stigum í úrvalsdeild kvenna í körfubolta þegar liðið fékk Stjörnuna í heimsókn í Hveragerði í kvöld. Stjarnan sigraði 77-87.
Liðin eru að berjast á svipuðum stað á töflunni og sigur því báðum liðum mikilvægur.
Hamar/Þór byrjaði vel og skoraði fyrstu sjö stigin en Stjarnan skreið framúr undir lok 1. leikhluta og staðan var 25-27 eftir tíu mínútna leik. Hamar/Þór komst aftur yfir í 2. leikhluta eftir góðan sprett en Stjarnan svaraði jafnharðan og gestirnir leiddu í hálfleik, 47-51.
Seinni hálfleikurinn þróaðist eins og sá fyrri, liðin skiptust á því að gera áhlaup og allt var í járnum fram í 4. leikhluta. Þar fór allt í skrúfuna hjá þeim sunnlensku í sóknarleiknum og þær skoruðu aðeins sex stig á síðustu átta mínútum leiksins. Stjarnan gekk á lagið og breytti stöðunni úr 71-71 í 77-87, sem urðu lokatölur leiksins.
Abby Beeman lék allar 40 mínútur leiksins og var stiga- og framlagshæst hjá Hamri/Þór með 25 stig, 11 fráköst og 7 stoðsendingar. Anna Soffía Lárusdóttir skoraði 16 sig og Hana Ivanusa 15.
Staðan í deildinni er þannig eftir 14 leiki að Hamar/Þór er í 8. sæti með 10 stig en Stjarnan fór upp í 6. sætið með 12 stig.
Hamar/Þór-Stjarnan 77-87 (25-27, 22-24, 20-16, 10-20)
Tölfræði Hamars/Þórs: Abby Beeman 25/11 fráköst/7 stoðsendingar, Anna Soffía Lárusdóttir 16, Hana Ivanusa 15/9 fráköst, Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir 8/4 fráköst, Kristrún Ríkey Ólafsdóttir 7/10 fráköst, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir 5, Bergdís Anna Magnúsdóttir 1, Gígja Rut Gautadóttir 4 varin skot.