Selfyssingar eru í slæmri stöðu á botni úrvalsdeildar karla í handbolta eftir tap gegn Víkingi á útivelli í dag, 21-18.
Selfoss er nú í neðsta sæti deildarinnar með 6 stig en Víkingur einu sæti ofar með 8 stig.
Jafnt var á nánast öllum tölum í fyrri hálfleik og staðan í leikhléi var 11-11. Byrjunin í seinni hálfleik var hins vegar afleit hjá Selfyssingum, Víkingar skoruðu sjö fyrstu mörkin og það var ekki fyrr en fimmtán mínútur voru liðnar að Selfoss skoraði sitt fyrsta mark og breytti stöðunni í 18-12. Þar með var leikurinn farinn úr höndum Selfyssinga sem þó eygðu smá von á lokakaflanum, þegar munurinn var kominn niður í tvö mörk. Sú von varð að engu og Víkingur fagnaði mikilvægum sigri.
Hans Jörgen Ólafsson var markahæstur Selfyssinga með 5 mörk, Sveinn Andri Sveinsson skoraði 4, Sæþór Atlason og Gunnar Kári Bragason 3, Sölvi Svavarson 2/2 og Hannes Höskuldsson 1.
Markverðir Selfyssinga stóðu sig vel í dag. Vilius Rasimas var með 14/1 skot varin og 44% markvörslu og Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 3 skot og var með 50% markvörslu.