Viðar Örn Kjartansson er búinn að skora átta mörk í tíu leikjum í 1. deildinni í sumar en hann skoraði bæði mörk Selfoss í kvöld í 2-1 sigri á ÍR.
„Fyrri hálfleikur var góður hjá okkur og við áttum að gera út um leikinn þá en það tókst ekki. Við misstum hausinn í seinni hálfleik en náðum samt að klára verkefnið. Það var eins og við kæmum smá lamaðir til leiks eftir hlé, við vorum langt frá mönnum og unnum aldrei seinni boltann. Við vorum bara ekki með í leiknum,“ sagði Viðar sem kom Selfoss í 1-0 á 36. mínútu og 2-0 á 67. mínútu.
„Já, ég er virkilega ánægður með mörkin. Ég fór heldur betur illa með færin í fyrri hálfleik en náði að setja tvö og annað þeirra var sigurmark þannig að ég get verið sáttur,“ segir markaskorarinn.
„Fótboltinn er ekki alltaf sanngjarn. Við vorum betri í fyrri hálfleik og þeir í seinni hálfleik en við sköpuðum miklu betri færi og nýttum tvö þeirra. Það má alveg segja að sigurinn hafi verið sanngjarn þó að þeir hafi sótt hart að okkur síðustu tuttugu mínúturnar,“ sagði Viðar Örn að lokum.