Mixlið Selfoss sigraði örugglega

Krakkarnir úr fimleikadeildum Umf. Selfoss og Umf. Þórs áttu góðan dag á Reykjavík International Games í Laugardalshöllinni í dag. Mixlið Selfoss sigraði í 1. flokki blandaðra liða með góðu skori á öllum áhöldum.

Mixlið Selfoss er eitt þeirra liða sem er að keppa um að komast á Norðurlandamót unglinga sem haldið verður í apríl. Selfyssingarnir náðu góðum árangri í dag og voru með bestu einkunn á öllum áhöldum.

Næsta mótið þeirra er helgina 15. og 16.febrúar á Selfossi en það er fyrra úrtökumótið af tveimur. Seinna mótið er á Selfossi 15. mars. Helsti keppinautur Selfoss er Íþróttafélagið Gerpla en þau tefla fram öflugu liði í þessum flokki og urðu í 2. sæti í dag.

Úrslit dagsins urðu þessi:
Selfoss mix Gólf 17.47 – dýna 13.33 – tramp 12.60 = 43.37
Gerpla mix Gólf 16.67 – dýna 13.07 – tramp 12.35 = 42.08
Höttur mix Gólf 12.33 – dýna 8.50 – tramp 8.43 = 29.27

Að sögn Olgu Bjarnadóttur, framkvæmdastjóra fimleikadeildar Selfoss, áttu krakkarnir ágætt mót en eiga þónokkuð inni. „Þau frumsýndu nýjan dans sem gekk nokkuð vel en mikið á eftir að fínpússa. Á dýnu og trampólíni eiga þau þónokkuð inni enda ekki verið að keyra erfiðustu stökkin í upphafi keppnistímabilsins,“ sagði Olga í samtali við sunnlenska.is.

Meistaraflokkur kvenna keppti einnig á mótinu og höfnuðu þær í 2. sæti á eftir meistaraflokki Gerplu. Lið Gerplustúlkna sigruðu með yfirburðum með 53.50 stig en lið Selfossstúlkna skoraði 44.67 stig. Í þriðja sæti varð lið Hattar með 30.67 stig.

Meistaraflokkslið Selfoss er þónokkuð breytt frá síðasta keppnistímabili en kynslóðaskipti eru að verða í flokknum. Þær komu öllum á óvart með frábærri frammistöðu á mótinu í dag. Meistaraflokkur Stjörnunnar tók ekki þátt á þessu móti í dag.

Þór í fyrsta sinn með lið í 1. flokki
Þór Þorlákshöfn sendi lið til leiks í 1. flokki kvenna í fyrsta sinn. Stelpurnar stóðu sig mjög vel, keyrðu öruggar umferðir á dýnu og trampólíni og uppskáru vel eftir því, dansinn var mjög flottur og þær sýndu mikla útgeislun og innlifun. Þær urðu í 3. sæti í dansi með 12,03 , 5. sæti á dýnu með 10,2 og 5. sæti á trampólíni með 9,0 og því í 5. sæti samanlagt með 31,23, aðeins 0,5 stigum á eftir Fjölni sem varð í 4. sæti.


Lið Þórs náði góðum árangri á mótinu en Þórsarar tefldu nú í fyrsta skipti fram liði í 1. flokki. sunnlenska.is/Linda Ósk Þorvaldsdóttir

UPPFÆRT KL. 21:04

Fyrri greinUngmenni þinguðu í Árborg
Næsta greinVélsleðamönnum bjargað af Drekavatni