„Þetta var bara söguleg stund fyrir íslenska þjóð – og ótrúlegt að fá að taka þátt í þessu, ég er ennþá með gæsahúð,“ sagði Selfyssingurinn Jón Daði Böðvarsson eftir 2-0 sigur Íslands á Hollandi í undankeppni EM í knattspyrnu í kvöld.
Jón Daði var í byrjunarliði Íslands og átti frábæran leik, rétt eins og allir liðsfélagar hans. Hann hafði virkilega gaman af því að mæta stórliði Hollands.
„Það var bara virkilega gaman að mæta þessum köllum. Það eru heimsklassa leikmenn í þessu liði og það er auðvelt að mótivera sig fyrir svona leik. Mér fannst við koma inn í leikinn með brjóstkassann úti og sýna enga hræðslu. Við vorum bara virkilega flottir í dag,“ sagði Jón Daði í samtali við sunnlenska.is.
Þrátt fyrir að spila í fremstu víglínu hafði Jón Daði ríka varnarskyldu í leiknum og honum leiddist það ekkert.
„Það var bara fínt, mér finnst fínt að verjast af og til. Við vissum hver gæðin eru í hollenska liðinu, þeir eru virkilega góðir á boltann, þannig að við lögðum upp með góðan varnarleik og vörnin byrjaði á fremsta manni okkar. Við leystum þetta vel og þetta var frábær leikur hjá liðinu,“ segir Selfyssingurinn og hrósar stemmningunni í íslenska hópnum.
„Ég get tekið sem dæmi að ég kom sem nýliði inn og eftir bara tvo daga var maður kominn alveg inn í hópinn. Þetta er hrikalega flottur hópur og það verður enginn útundan og engum líður illa, öll dýrin í skóginum eru vinir.“
Seint í leiknum slapp Jón Daði einn í gegn og átti skot framhjá hollenska markinu. Átti hann ekki að skora?
„Jú, ég átti að skora. Ég var kominn í gegn og ég man bara að ég var algjörlega stífnaður í kálfunum því ég var búinn að hlaupa endalaust. Ef ég hefði ekki fundið fyrir krampa þá hefði ég kannski náð að setja hann undir lokin. Það er alveg óhætt að segja það að ég var orðinn ótrúlega þreyttur.“
Jón Daði var einnig í byrjunarliðinu gegn Lettum á útivelli síðastliðinn föstudag og þrátt fyrir að hafa úr litlu að moða var hann ágætlega sáttur við sinn leik.
„Það var allt í lagi leikur hjá mér. Það var erfitt að vera framherji á móti Lettum, þeir voru svo svakalega þéttir og þá er virkilega erfið vinna fyrir framherjana að gera eitthvað. Eina sem við gátum gert var að reyna að strekkja á liðinu og reyna að búa til pláss fyrir aðra. En í kvöld þá var meira pláss og nóg svæði bakvið hollensku vörnina og mér fannst við standa okkur vel í skyndisóknum og nýta plássið til að ógna þeim verulega,“ sagði Jón Daði og klikkti út með því að hann var ánægður með eigin frammistöðu í kvöld.
„Já, ég er ótrúlega ánægður með sjálfan mig og mjög stoltur Selfyssingur eftir svona leik.“