Hamar vann góðan sigur á Sindra á útivelli í 1. deild karla í körfubolta í kvöld, 98-104, í jöfnum leik.
Hvergerðingar eru í efri hluta stigatöflunnar en Sindramenn í botnbaráttu. Það var þó ekki að sjá í kvöld því leikurinn var jafn allan tímann og úrslitin réðust á síðustu sekúndunum.
Staðan í hálfleik var 50-53 og við tók jafn 3. leikhluti þar sem Sindri var skrefinu á undan en Hamar komst yfir aftur á lokakaflanum og staðan var 74-77 þegar síðasti fjórðungurinn hófst.
Þar náði Hamar 10-2 áhlaupi um miðjan leikhlutann og breyttu stöðunni í 84-94. Sindramenn voru ekki hættir og þjörmuðu að gestunum í lokin en Hamar hélt haus og fagnaði sigri.
Marko Milekic var bestur í liði Hamars í kvöld með 22 stig og 13 fráköst og Everage Richardson var öflugur að vanda, þó að skotnýting hans væri slök. Richardson skoraði 24 stig og tók 16 fráköst.
Sannfærandi tap Selfyssinga
Selfoss tók á móti toppliði Þórs Ak. í gærkvöldi og tapaði sannfærandi, 93-113. Munurinn varð mestur 30 stig í 3. leikhluta en allar varnir lágu niðri hjá Selfyssingum auk þess sem liðið átti í erfiðleikum í sókninni gegn sterku liði Þórs. Tölfræði leiksins er ekki komin á netið.
Tölfræði Hamars: Everage Lee Richardson 24/16 fráköst/5 stoðsendingar, Marko Milekic 22/13 fráköst, Arnór Sveinsson 14, Dovydas Strasunskas 13, Florijan Jovanov 12, Geir Elías Úlfur Helgason 11, Oddur Ólafsson 5, Gabríel Sindri Möller 3, Daníel Sigmar Kristjánsson 0.