Selfoss vann öruggan heimasigur á ÍH í 1. deild karla í handbolta í kvöld en Mílan tapaði stórt fyrir toppliði Gróttu á útivelli.
Selfyssingar leiddu 15-11 í hálfleik og voru svo miklu sterkari aðilinn í síðari hálfleik en lokatölur urðu 33-19.
Nýliðinn Egill Eiríksson var markahæstur hjá Selfyssingum með 6 mörk en allir útispilarar liðsins komust á blað. Hörður Másson skoraði 5 mörk, Andri Már Sveinsson 4, Sverrir Pálsson, Daníel Róbertsson og Matthías Halldórsson 3, Guðjón Ágústsson, Árni Geir Hilmarsson og Jóhann Erlingsson 2 og þeir Egidijus Mikalonis, Ómar Helgason og Gunnar Ingi Jónsson skoruðu allir 1 mark.
Sebastian Alexandersson varði 14 skot í marki Selfoss og var með 58% markvörslu og Sölvi Sölvason varði 8 skot og var með 50% markvörslu.
Dómararnir fóru á Selfoss
Mögnuð uppákoma varð fyrir leik Gróttu og Mílan sem fram fór í íþróttamiðstöðinni á Seltjarnarnesi. Dómarar leiksins, Ingvar Guðjónsson og Þorleifur Björnsson, rugluðust eitthvað í rýminu, töldu leikinn vera á Selfossi og óku því austur fyrir fjall. Þar var allt annar leikur í uppsiglingu og sneru þeir því til baka en leikur Gróttu og Mílan tafðist um 45 mínútur af þessum sökum og liðin þurftu að hita tvisvar upp.
Þegar leikurinn hófst lét toppliðið gestina frá Selfossi heldur betur hafa fyrir hlutunum en Gróttumenn unnu öruggan fimmtán marka sigur, 37-22. Grótta náði fimm marka forskoti snemma leiks og leiddi með tíu mörkum í hálfleik, 19-9. Grótta komst í 22-9 í upphafi síðari hálfleiks og sigur þeirra aldrei í hættu eftir það.
Atli Kristinsson var markahæstur í liði Mílan með 7 mörk, Örn Þrastarson skoraði 6, Rúnar Hjálmarsson 4, Aron Valur Leifsson 2 og þeir Árni Felix Gíslason, Eyþór Jónsson, Eyvindur Hrannar Gunnarsson og Einar Sindri Ólafsson skoruðu allir 1 mark.
Stefán Ármann Þórðarson varði 7 skot í marki Mílan og var með 27% markvörslu og Ástgeir Sigmarsson varði 5 skot og var með 21% markvörslu.
Selfoss er í 3. sæti deildarinnar með 17 stig en Mílan er í 8. sæti með 5 stig.