Möguleiki er á því að skipt verði um gólf í íþróttahúsi Vallaskóla á Selfossi á þessu ári. Handboltamenn hafa kvartað mikið undan gólfinu vegna meiðsla sem núverandi gólfdúkur hefur valdið.
Á síðasta fundi Íþrótta- og tómstundanefndar Árborgar fór Bragi Bjarnason, menningar- og frístundafulltrúi, yfir stöðu mála varðandi uppbyggingu íþróttamannvirkja í Árborg.
Fram kom að vinna við búningsklefa í nýju stúkunni á Selfossvelli sé í gangi og vonandi verði hægt að bjóða verkið út sem fyrst.
Í ár verður einnig skipt um þak á íþróttahúsinu á Stokkseyri sem og mögulega gólfefni í íþróttahúsi Vallaskóla en verið er að vinna í því máli með íþróttahreyfingunni.