Mörkunum rigndi á Flúðum

Markvörðurinn Björn Mikael Karelsson skoraði tvö mörk fyrir Uppsveitir. Ljósmynd/ÍBU

Uppsveitir tóku á móti Reyni Hellissandi í 5. deild karla í knattspyrnu í gær. Mörkunum rigndi á Flúðavelli en heimamenn unnu 8-1 sigur.

Leikurinn var markalaus fyrsta hálftímann en heimamenn skoruðu fimm mörk á síðasta korterinu og gestirnir eitt og staðan var 5-1 í hálfleik. George Razvan kom ÍBU á bragðið og á eftir fylgdu mörk frá Daníel Ben Daníelssyni, Deividas Leskys, Ragnari Inga Þorsteinssyni og Samuel Hernandez.

Seinni hálfleikurinn var mun rólegri hvað varðar markaskorun. Daníel Ben breytti stöðunni í 6-1 um miðjan seinni hálfleikinn og á 72. mínútu gerði Tindur Örvarsson, þjálfari Uppsveita, taktíska skiptingu þegar hann setti markvörðinn Björn Mikael Karelsson í framlínuna. Björn Mikael þakkaði traustið og skoraði tvö mörk á lokakaflanum og tryggði Uppsveitum 8-1 sigur.

Uppsveitir eru nú í 6. sæti B-riðilsins með 13 stig en Reynir H er í 8. sæti með 6 stig.

Fyrri greinÓliver afgreiddi KFS
Næsta greinSkemmtanahald næturinnar fór vel fram