Selfyssingar girtu sig rækilega í brók í kvöld og völtuðu yfir Völsung, 6-1, í 1. deild karla í knattspyrnu.
Heimamenn mættu gríðarlega ákveðnir til leiks og skoruðu tvívegis á fyrstu sjö mínútunum. Þeir sem voru seinir á völlinn misstu þannig af tveimur frábærum mörkum en aðeins 27 áhorfendur voru í stúkunni þegar flautað var til leiks. Flestir þeirra óskuðu sér að þak væri komið á stúkuna eins og lofað var fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar.
Þrátt fyrir úrhellið voru Selfyssingar sprækir. Ingólfur Þórarinsson skoraði ákaflega snyrtilegt mark á 4. mínútu. Hann fékk sendingu frá Javier Zurbano og tók létt sambaspor fyrir framan varnarmenn Völsungs áður en hann potaði knettinum hárfínt framhjá markverði gestanna og í netið.
Næsta mark var jafnvel ennþá laglegra en það skoraði enginn annar en fyrirliðinn Andy Pew. Andy fékk góða sendingu inn á vítateiginn frá Bjarka Má Benediktssyni og renndi sér í boltann á undan varnarmanni Völsungs og lyfti knettinum snyrtilega í netið. Fyrirliðinn fagnaði vel enda fyrsta deildarmark hans fyrir Selfoss síðan 24. júní 2006.
Eftir frábæra byrjun róaðist leikurinn nokkuð en Selfyssingar voru áfram sterkari aðilinn og varnarleikur Völsunga var ákaflega brothættur. Á 26. mínútu fékk Javier Zurbano færi sem var svo gott að erfitt er að lýsa því í orðum. Ingvi Rafn Óskarsson renndi þá boltanum inn á vítateiginn þar sem Zurbano stóð aleinn og yfirgefinn skammt frá markteignum og hafði allan tímann í heiminum til að athafna sig. Einhverra hluta vegna tókst honum að skjóta boltanum framhjá markinu og var það fullkomlega í takt við frammistöðu Spánverjans í leiknum í kvöld.
Yfirburðir Selfyssinga héldu áfram fram að leikhléi og fengu Luka Jagacic og Svavar Berg Jóhannsson báðir ágæt færi auk þess sem Völsungar björguðu á línu frá Sindra Snæ Magnússyni eftir hornspyrnu. 2-0 í hálfleik.
Selfoss hafði áfram yfirhöndina í upphafi síðari hálfleiks en fátt var um færi fyrr en á 57. mínútu að Svavar Berg slapp einn í gegn eftir sendingu frá Ingva Rafni og skoraði af öryggi, 3-0.
Eftir það var leikurinn í jafnvægi en þegar Gunnar Guðmundsson, þjálfari Selfoss, tók Javier Zurbano af velli fóru hlutirnir að gerast og sóknarleikur heimamanna hresstist til muna.
Á 73. mínútu komst Selfoss í 4-0 þegar besti maður vallarins, Ingólfur Þórarinsson, slapp í gegn og var kominn í gott færi. Hann renndi boltanum hins vegar til vinstri á Svavar Berg sem var í enn betra færi og skoraði í autt markið.
Lokamínúturnar voru fjörlegar. Hrannar Björn Steingrímsson minnkaði muninn fyrir Völsung á 85. mínútu með laglegu marki eftir skyndisókn en þá var komið að þætti Inga Rafns Ingibergssonar, sem hafði komið inná sem varamaður á 76. mínútu.
Ingi Rafn stal senunni og skoraði tvívegis á lokamínútunni, með 27 sekúndna millibili. Fyrst slapp Þorsteinn Daníel Þorsteinsson upp að endamörkum og renndi fyrir á Inga Rafn sem var einn á markteignum og skoraði af öryggi. Ingi fagnaði með tilþrifum, Völsungar tóku miðju, Selfoss vann boltann og eftir klafs í teignum sendi Magnús Ingi Einarsson boltann á Inga Rafn sem skoraði aftur úr svipuðu færi og því fyrra. Lokatölur 6-1.
Þrátt fyrir þennan örugga sigur á botnliðinu eru Selfyssingar enn í 9. sæti deildarinnar, nú með 21 stig en telja má víst að Völsungar séu fallnir.