Mörkunum rigndi í Mjólkurbikarnum

Helgi Valur Smárason sækir að marki KFK í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrstu umferð Mjólkurbikars karla í knattspyrnu lauk í dag. Árborg og Ægir eru komin í 2. umferðina en KFR og Uppsveitir eru úr leik.

Það var heldur betur boðið upp á markaveislu þegar KFR tók á móti KFK á grasvellinum við Heimaland undir Eyjafjöllum. Hjörvar Sigurðsson kom KFR yfir strax á 6. mínútu með marki úr vítaspyrnu en KFK jafnaði fimm mínútum síðar. Hjörvar var aftur á ferðinni á 21. mínútu og skoraði þá sitt 100. mark fyrir Knattspyrnufélag Rangæinga. Carlos Castellano, fyrrum leikmaður Hamars og Uppsveita, reyndist KFR óþægur ljár í mosavaxinni þúfu því hann skoraði tvisvar með mínútu millibili um miðjan fyrri hálfleikinn og staðan var 2-3 í leikhléi.

Leikmenn KFK mættu mun ákveðnari inn í seinni hálfleikinn og skoruðu þrisvar á fyrstu tuttugu mínútunum. Staðan orðin 2-6 og enn syrti í álinn hjá KFR þegar Rúnar Þorvaldsson fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á 66. mínútu. Þetta sló Rangæinga þó ekki út af laginu því Bjarni Þorvaldsson og Hjörvar Sigurðsson bættu við mörkum á næstu mínútum og minnkuðu muninn í 4-6. Gestirnir áttu hins vegar síðasta orðið og bættu við tveimur mörkum á síðustu tíu mínútunum og tryggðu sér 4-8 sigur.

Árborg skoraði tólf
Leikur Árborgar gegn Reyni Hellissandi á Selfossvelli var einstefna frá A-Ö og lauk með 12-0 sigri Árborgar. Staðan var 4-0 í hálfleik. Kristinn Sölvi Sigurgeirsson skoraði fjögur mörk fyrir Árborg, Magnús Hilmar Viktorsson og Kristinn Ásgeir Þorbergsson tvö og þeir Þorsteinn Daníel Þorsteinsson, Aron Freyr Margeirsson, Arilíus Óskarsson og Steinar Aron Magnússon skoruðu allir eitt mark.

Ægismenn örugglega áfram
Ægismenn eru komnir áfram eftir góðan 1-3 sigur á Skallagrím í Akraneshöllinni. Borgnesingar voru fyrri til að skora en Anton Breki Viktorsson og Brynjólfur Þór Eyþórsson komu Ægi yfir fyrir leikhlé og staðan var 1-2 í hálfleik. Rúmum tíu mínútum fyrir leikslok skoraði Sigurður Hrannar Þorsteinsson þriðja mark Ægis og þar við sat.

Uppsveitir í kröppum dansi
Uppsveitir heimsóttu Kára í Akraneshöllina og þar reyndust Káramenn sterkari. Oskar Wasilewski, fyrrum leikmaður Selfoss, kom Kára yfir á 5. mínútu og heimamenn skoruðu svo tvisvar til viðbótar undir lok fyrri hálfleiks. Staðan var 3-0 í hálfleik en fjórða mark Kára leit dagsins ljós strax í upphafi seinni hálfleiks. Káramenn tryggðu sér svo 5-0 sigur með síðasta marki leiksins um miðjan seinni hálfleikinn.

Í 2. umferðinni tekur Árborg á móti Árbæ og Ægir fær Hauka í heimsókn. Selfoss komst áfram í 2. umferðina eftir að Stokkseyri dró sig úr keppni og Selfoss mætir Kára í 2. umferðinni. Leikirnir verða spilaðir um næstu helgi.

Hjörvar Sigurðsson skoraði þrennu í dag og er kominn með 101 mark fyrir KFR. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Knattspyrnuvöllurinn við Heimaland er hömrum girtur og vallarstæðið eitt það fallegasta á Íslandi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Kristinn Ásgeir, Kristinn Sölvi og Magnús Hilmar skoruðu átta af tólf mörkum Árborgar í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinLillý söng listavel til sigurs
Næsta greinHalla Hrund býður sig fram