Mörkunum rigndi í seinni hálfleik

Ægismenn kampakátir eftir sigurleikinn í sumar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægir vann stórsigur á Kóngunum og KFR lagði Kríu örugglega í leikjum kvöldsins í D-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

Ægir heimsótti Kóngana á Þróttarvöll. Staðan var 0-1 í leikhléi en í síðari hálfleik opnuðust allar flóðgáttir og Ægismenn skoruðu átta mörk til viðbótar.

Goran Potkozarac skoraði fjögur mörk fyrir Ægi, Einar Ísak Friðbertsson og Ásgrímur Þór Bjarnason tvö mörk hvor og Þorkell Þráinsson eitt.

Á Vivaldivellinum á Seltjarnarnesi mættust Kría og KFR og Jóhann Gunnar Böðvarsson kom Rangæingum yfir á 9. mínútu leiksins. Það reyndist eina mark fyrri hálfleiks en Hjörvar Sigurðsson tvöfaldaði forystu KFR í upphafi seinni hálfleiks. Krían goggaði til baka á 75. mínútu en Helgi Ármannsson tryggði KFR 1-3 sigur með góðu marki fimm mínútum fyrir leikslok.

Ægismenn sitja á toppi D-riðilsins með 20 stig en KFR er í 3. sætinu með 16 stig. Þar á milli situr Elliði með 18 stig.

Fyrri greinKonan og garðurinn í Hlöðunni
Næsta greinMalbikað á Heiðinni – lokað til vesturs