Mosfellingar unnu Varmárslaginn

Markús Andri Daníelsson Martin. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar hóf leik í Lengjubikar karla í knattspyrnu í gærkvöldi þegar liðið heimsótti Álafoss að Varmá – í Mosfellsbæ.

Hvergerðingar voru á hælunum í upphafi leiks og Mosfellingar voru komnir í 2-0 eftir tíu mínútna leik. Markús Andri Daníelsson Martin minnkaði muninn á 18. mínútu en Álafoss bætti þriðja markinu við tíu mínútum síðar og staðan var 3-1 í hálfleik.

Seinni hálfleikur byrjaði fjörlega. Álafoss komst í 4-1 á 54. mínútu en strax í næstu sókn skoraði Daníel Ben Daníelsson fyrir Hamar. Bæði lið áttu ágætar sóknir eftir það en Álafoss átti lokaorðið og þeir tryggðu sér 5-2 sigur með marki á 82. mínútu.

Næsti leikur Hamars er gegn Skautafélagi Reykjavíkur þann 6. mars en önnur lið í riðlinum eru Álftanes og Knattspyrnufélagið Miðbær.

Fyrri greinHörkuleikur í Höfninni
Næsta greinSigurður grasrótarpersóna KSÍ 2024