Hamar vann öruggan heimasigur á Ármanni og FSu vann frábæran sigur á Val í hörkuleik í Iðu í 1. deild karla í körfubolta í kvöld.
Ármenningar byrjuðu betur í leiknum gegn Hamri en heimamenn komu til baka í 2. leikhluta og leiddu í leikhléi, 46-38. Hamar jók svo smátt og smátt við forskotið í síðari hálfleik og vann að lokum öruggan sigur, 104-77.
Christopher Woods var stigahæstur hjá Hamri með 27 stig, Örn Sigurðarson skoraði 19, Oddur Ólafsson 17 og Rúnar Ingi Erlingsson 16.
Í Iðu var leikur FSu og Vals jafn og spennandi allan tímann. Mikið var skorað í 1. leikhluta en staðan að honum loknum var 27-25. Valsmenn náðu forystunni í 2. leikhluta og leiddu í hálfleik, 43-45. Baráttan hélt áfram í 3. leikhluta þar sem valur skoraði sex síðustu stigin og leiddi 65-70 þegar síðasti fjórðungurinn hófst.
FSu jafnaði 77-77 þegar rúmar sex mínútur voru eftir og náðu í kjölfarið fjögurra stiga forystu, 83-79. Valsmenn voru ekki af baki dottnir og minnkuðu muninn í tvö stig, 89-87 þegar 25 sekúndur voru eftir af leiknum en Ari Gylfason var sallarólegur á vítalínunni í kjölfarið og setti niður fjögur víti á síðustu sekúndunum. Valsmenn náðu að minnka muninn aftur niður í þrjú stig, 93-90 þegar níu sekúndur voru eftir en Terrence Motley skoraði síðasta stig leiksins af vítalínunni þegar fimm sekúndur voru eftir og tryggði FSu fjögurra stiga sigur, 94-90.
Motley var frábær í leiknum en hann skoraði 50 stig. Ari Gylfason kom næstur honum með 16 stig og Sveinn Hafsteinn Gunnarsson skoraði 11.
FSu er nú í 3. sæti deildarinnar með 8 stig en Hamar er í 4. sætinu með 6 stig.