Myndbirting á Facebook breytti öllu

„Ég ákvað að fara af stað með námskeið vegna fjölda áskorana. Eftir að ég birti myndir af árangri mínum er ég búin að sitja við tölvuna og hjálpa fólki út um allt land við að koma sér af stað,“ segir Helga Dóra Gunnarsdóttir frá Selfossi sem byrjaði að æfa svokallað Body Rock fyrir ári síðan.

Helga Dóra birti myndir af árangri sínum á Facebook síðu sinni fyrir um það bil níu mánuðum og voru viðbrögðin við myndunum það mikil, að síðan þá hefur hún verið önnum kafin að svara fólki í gegnum tölvu og síma.

Aðspurð segir Helga Dóra að hún hafi byrjað að gera Body Rock æfingar heima í stofu eftir að hún átti yngri strákinn sinn fyrir tveimur árum. Til að byrja með hafði hún gert eina og eina æfingu en fyrir ári síðan ákvað hún að gera æfingarnar markvissari.

„Í september í fyrra ákvað ég að skora á sjálfa mig að gera þessar æfingar daglega sex sinnum í viku í þrjá mánuði og sjá hvaða árangri ég myndi ná á þeim tíma. Ég skoraði jafnframt á sjálfa mig að birta myndir af þeim árangri,“ segir Helga. Sem fyrr segir hefur hún ekki haft undan við að liðsinna fólki að koma sér í form eftir að umtalaðar myndir birtust á Facebook síðunni hennar.

Að sögn Helgu Dóru eru Body Rock æfingar fyrir alla, unga sem aldna, íþróttafólk og líka fólk sem hefur ekki verið í þjálfun. „Body Rock eru æfingar með eigin líkamsþynd. Æfingarnar eru allar þannig að hægt er að gera þær sama í hvernig líkamsástandi maður er. Gott dæmi eru armbeyjur á tám og ef viðkomandi getur ekki á tám þá eru þær gerðar á hnjám. En styrkurinn er fljótur að koma og flestir byrja á hnjám en eru innan skamms komnir uppá tær,“ segir Helga Dóra sem hefur sjálf aldrei verið í betri form en akkúrat núna. Helga Dóra bætir því við að hver æfing sé að auki stutt, ekki nema 12-18 mínútur og hentar því vel fólki sem hefur mikið að gera. Auk þess að kenna Body Rock er Helga Dóra að læra einkaþjálfun í fjarnámi frá ISSA, International Sports Sciences Association.

„Það hafa ekki allir aga í að gera æfingar heima og margir þurfa að hafa einhvern til að segja sér fyrir verkum í þessu eins og svo mörgu öðru. Eins þarf fólk að gera æfingarnar rétt,“ segir Helga Dóra, en hún hefur fengið óskir um að koma með námskeiðið til Reykjavíkur og bæði austur og norður á land.

Helga Dóra er með æfingaaðstöðu í íþróttahúsinu Iðu á Selfossi og hefst nýtt Body Rock námskeið í október.

Facebook síða Body Rock Helgu Dóru

helga_body2rock170912jsh_700797963.jpg
Helga Dóra Body Rock þjálfari.

helgadoragunn_811354874.jpg
Myndin sem birtist á Facebook síðu Helgu Dóru og kom öllu af stað.

Fyrri greinTinna Björg: „Íþróttahúsið“ á Stokkseyri
Næsta greinMagnús Karl bestur hjá Ægi