Það var frábær stemmning í íþróttahúsinu Iðu í kvöld þar sem Selfoss vann góðan sigur á Klaipedas Dragunas í sínum fyrsta Evrópuleik í handbolta í 24 ár. Lokatölur urðu 34-28.
„Við byrjuðum af krafti og spiluðum góða vörn og Pawel var stórkostlegur í markinu í fyrri hálfleik. Við náðum að keyra á þá og spila á okkar hraða, þannig að þetta var bara flott. Stemmningin í húsinu var góð og ég þakka fólkinu sem kom og studdi okkur,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Selfyssingar höfðu forystuna frá fyrstu mínútu en þeir byrjuðu mjög vel með Einar Sverrisson og nýja markvörðinn Pawel Kiepulski fremsta í flokki. Staðan í hálfleik var 17-13.
Í seinni hálfleik náðu Selfyssingar hægt og bítandi góðu forskoti og þegar þrettán mínútur voru eftir var munurinn orðinn níu mörk, 28-19. Þá tók Maxym Voliuvach við sér í marki gestanna og varði fjögur skot á stuttum tíma auk þess sem Selfyssingar slökuðu á í vörninni. Dragunas minnkaði muninn niður í fjögur mörk, 30-26, en þá tók Selfossliðið aftur á sprett og raðaði inn nokkrum góðum mörkum.
Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk, Árni Steinn Steinþórsson skoraði 7, Hergeir Grímsson 6, Haukur Þrastarson og Atli Ævar Ingólfsson 5, Guðni Ingvarsson 2 og Elvar Örn Jónsson 1. Pawel Kiepulski varði 16/1 skot og Helgi Hlynsson kom inná og varði eitt vítaskot.
Seinni leikur liðanna fer fram í Klaipedas í Litháen á laugardaginn og halda Selfyssingar af stað í ferðalagið næstkomandi miðvikudag.