Selfoss tapaði 25-29 þegar Grótta kom í heimsókn í Vallaskóla í kvöld, í Olís-deild karla í handbolta. Keppni í deildinni hófst aftur í kvöld eftir langt frí.
„Grótta spilaði leikinn gríðarlega vel og við náðum aldrei að láta vörnina smella. Við vorum oft ansi nálægt því en það vantaði herslumuninn. Þetta hefði getað fallið með okkur undir lokin en okkur vantaði klókindi og aga og Gróttumenn voru bara hrikalega erfiðir í dag,“ sagði Stefán Árnason, þjálfari Selfoss eftir leik.
Leikurinn var jafn lengst af. Selfoss náði tvívegis tveggja marka forskoti í fyrri hálfleik en Grótta leiddi 12-14 þegar skammt var til leikhlés. Selfoss jafnaði þá 15-15 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Jafnræðið hélt áfram í seinni hálfleik en Selfoss hafði undirtökin allt þar til tíu mínútur voru eftir. Grótta skoraði þá fimm mörk í röð og breytti stöðunni úr 22-20 í 22-25, þegar fimm mínútur voru eftir. Lokakaflinn var Selfyssingum erfiður þar sem ekkert gekk upp í sókninni.
Teitur Örn Einarsson var markahæstur Selfyssinga með 9/3 mörk. Hann var frábær í fyrri hálfleiknum þar sem hann skoraði 7 mörk. Einar Sverrisson skoraði 4 mörk, Guðni Ingvarsson og Elvar Örn Jónsson 3, Hergeir Grímsson og Sverrir Pálsson 2 og þeir Guðjón Ágústsson og Alexander Egan skoruðu sitt markið hvor.
Helgi Hlynsson átti góðan leik í marki Selfoss og varði 17/1 skot.
Þrátt fyrir tapið er Selfoss áfram í 6. sæti með 16 stig en þar fyrir neðan eru Fram, Grótta, Akureyri og Stjarnan, öll með 13 stig.