Selfoss vann öruggan sigur á Þór Akureyri á heimavelli í Olísdeild karla í handbolta í dag. Lokatölur urðu 33-24.
„Við vorum góðir í fyrri hálfleik, þar sem við spilum frábæra vörn og hlaupum vel á þá. Við fengum mikið af einföldum mörkum þar. Við lögðum upp með að láta tempóið þeirra ekki stjórna okkar tempói og það tókst. Það er alls ekki auðvelt að spila við Þór og hvað þá að vinna þá með níu mörkum. Það eru ekki mörg lið sem gera það og ég er ánægður með það. Menn eru líka meðvitaðir um leikjaálagið og við náðum að rúlla mannskapnum vel í dag,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Öruggt frá upphafi
Selfoss tók öll völd strax í upphafi leiks og sigur þeirra var aldrei í hættu. Munurinn var fljótlega orðinn fjögur mörk og í leikhléi var staðan 20-12.
Þórsarar byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og skoruðu fimm góð mörk en Selfyssingar voru fljótir að skrúfa fyrir þann leka. Munurinn var aftur orðinn átta mörk og Halldór Jóhann gat notað nánast alla leikmenn sína og hvílt lykilmenn, sem er mikilvægt í þéttri leikjatörn.
Rasimas í stuði
Atli Ævar Ingólfsson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Einar Sverrisson skoraði 5, Hergeir Grímsson 4, Sveinn Aron Sveinsson 4/2, Guðmundur Hólmar Helgason og Ragnar Jóhannsson 3, Magnús Öder Einarsson, Hannes Höskuldsson og Tryggvi Þórisson 2 og Nökkvi Dan Elliðason 1.
Vilius Rasimas átti frábæran leik í marki Selfoss og varði 16 skot og Alexander Hrafnkelsson varði 2 skot á lokamínútunum.