1. deildarlið Selfoss tapaði með einu marki, 26-27, í furðulegum handboltaleik gegn ÍR í íþróttahúsi Vallaskóla í kvöld.
ÍR-ingar tóku forystuna strax í upphafi og komust í 1-4 áður en Selfoss minnkaði muninn í 4-5. Eftir það voru Selfyssingar ákaflega hægir og áhugalausir í sókninni og ÍR-ingar gengu á lagið. Þeir voru með nánast 100% sóknarnýtingu fyrstu tuttugu mínútur leiksins, skoruðu sex mörk í röð um miðjan fyrri hálfleik og breyttu þar stöðunni í 6-14. Selfyssingar komust lítið áleiðis gegn ÍR vörninni auk þess sem markvörður gestanna var í miklu stuði en Staðan var 10-16 í hálfleik.
Það var ekkert sem benti til þess að Selfyssingar myndu girða sig í brók í seinni hálfleik og líklega hafa ÍR-ingar verið sammála því, því þeir slökuðu virkilega á síðustu tuttugu mínútur leiksins. Selfoss minnkaði muninn jafnt og þétt og þegar átta mínútur voru eftir af leiknum eygðu menn raunhæfa von á því að fá eitthvað út úr leiknum. Staðan var þá 21-24. Selfyssingar héldu ótrauðir áfram og minnkuðu muninn í eitt mark, 24-25 þegar fjórar og hálf mínúta voru eftir á klukkunni.
Selfossliðið keyrði upp hraðann í sókninni og tók tvo ÍR-inga úr umferð í vörninni. Gestirnir áttu ekkert svar við þessu og leikurinn var í járnum fram á síðustu mínútu. Selfoss minnkaði muninn í 26-27 þegar nákvæmlega ein mínúta var eftir af leiknum og ÍR-ingar héldu í sókn. Þeir fengu vítakast þegar 18 sekúndur voru eftir en Sverrir Andrésson gerði sér lítið fyrir og varði það glæsilega. Selfyssingar tóku leikhlé þegar sjö sekúndur voru eftir af leiknum en upplegg Arnars Gunnarssonar þjálfara í hléinu gekk ekki eftir. Þrátt fyrir að vera tveimur mönnum fleiri í síðustu sókninni fundu Selfyssingar ekki skotið sem þeir leituðu að. Boltinn gekk á milli manna eins og lifandi handsprengja og á endanum skaut Eyþór Lárusson úr lélegu færi og skot hans var varið.
Bæði lið voru mistæk í sókninni á lokakaflanum og Selfyssingar hefðu getað gert mun betur. Þeir misnotuðu tvær sóknir klaufalega á síðustu fjórum mínútum og klúðruðu síðustu sókn leiksins. „Ef og hefði“ telur reyndar ekkert í þessu samhengi en ef Selfyssingar hefðu spilað eins og menn í fyrri hálfleik hefðu þeir örugglega fengið eitthvað út úr leiknum.
Atli Kristinsson var markahæstur Selfyssinga með 6 mörk og Eyþór Lárusson skoraði 5 þegar loksins kviknaði á honum undir lokin. Hörður Bjarnarson skoraði 5/3 mörk, Gunnar Ingi Jónsson 4, Eyvindur Gunnarsson 3, Guðni Ingvarsson 2 og Matthías Halldórsson 1.
Helgi Hlynsson varði 6 skot í leiknum en Sverrir Andrésson varði 10/1 skot síðustu tuttugu mínúturnar og hefði þá átt að vera löngu kominn inná.