Selfoss vann lífsnauðsynlegan sigur á Aftureldingu í 1. deild kvenna í knattspyrnu í Mosfellsbæ í kvöld.
Selfoss komst yfir undir lok fyrri hálfleiks þegar Katrín Ágústsdóttir vann boltann af harðfylgi djúpt á vellinum og geystist fram. Hún renndi boltanum á Jóhönnu Elínu Halldórsdóttur sem átti skot í varnarmann en frákastið datt fyrir Unni Dóru Bergsdóttur sem laumaði boltanum í netið.
Staðan var 1-0 í hálfleik en Afturelding jafnaði metin þegar rúmt korter var liðið af seinni hálfleik. Selfoss lét það ekki á sig fá, Katrín skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu á 74. mínútu og á 82. mínútu renndi hún boltanum innfyrir vörn Aftureldingar þar sem Hólmfríður Magnúsdóttir mætti á vettvang og skoraði með snyrtilegu skoti.
Þrátt fyrir sigurinn er Selfoss enn í fallsæti með 14 stig, þremur stigum frá öruggu sæti þegar þrjár umferðir eru eftir.