Hamar og FSu sigruðu í leikjum sínum í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. FSu lagði Hött á Egilsstöðum 85-87 og Hamar vann Vængi Júpíters 85-90 í framlengdum leik.
Leikur Vængja Júpíters og Hamars var jafn frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu en heimamenn leiddu að loknum 1. leikhluta, 17-14 og staðan í hálfleik var 43-41.
Vængirnir náðu sjö stiga forskoti í upphafi síðasta fjórðungsins en Hamar náði að jafna 79-79 eftir 0-6 áhlaup á síðustu tveimur mínútunum. Þegar mínúta var eftir var staðan 81-79 en fyrirliðinn Halldór Gunnar Jónsson tók það að sér að jafna og tryggja Hamri framlengingu þegar sextán sekúndur voru eftir af leiknum.
Hvergerðingar voru sterkari í framlengingunni og náðu strax fimm stiga forystu sem þeir héldu til leiksloka.
FSu var í heimsókn á Egilsstöðum þar sem liðin skiptust á áhlaupum í 1. leikhluta en FSu leiddi að honum loknum, 18-22. Sveiflurnar voru miklar í 2. leikhluta, FSu byrjaði á 2-13 skorpu sem Höttur svaraði með 8-0 áhlaupi. FSu skoraði þá sex stig í röð og hafði þá tíu stiga forskot, 31-41, en heimamenn komust þá aftur í gírinn og svöruðu með tólf stigum í röð. Staðan í hálfleik var 43-44.