Naumir sigrar hjá Hamri og FSu

Hamar og FSu sigruðu í leikjum sínum í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. FSu lagði Hött á Egilsstöðum 85-87 og Hamar vann Vængi Júpíters 85-90 í framlengdum leik.

Leikur Vængja Júpíters og Hamars var jafn frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu en heimamenn leiddu að loknum 1. leikhluta, 17-14 og staðan í hálfleik var 43-41.

Vængirnir náðu sjö stiga forskoti í upphafi síðasta fjórðungsins en Hamar náði að jafna 79-79 eftir 0-6 áhlaup á síðustu tveimur mínútunum. Þegar mínúta var eftir var staðan 81-79 en fyrirliðinn Halldór Gunnar Jónsson tók það að sér að jafna og tryggja Hamri framlengingu þegar sextán sekúndur voru eftir af leiknum.

Hvergerðingar voru sterkari í framlengingunni og náðu strax fimm stiga forystu sem þeir héldu til leiksloka.

Halldór Gunnar og Danero Thomas voru stigahæstir hjá Hamri með 26 stig hvor, Snorri Þorvaldsson og Ingvi Guðmundsson skoruðu báðir 12 stig, Aron Freyr Eyjólfsson 11 og Bjartmar Halldórsson 3.
Ari hrökk í gírinn undir lokin
FSu var í heimsókn á Egilsstöðum þar sem liðin skiptust á áhlaupum í 1. leikhluta en FSu leiddi að honum loknum, 18-22. Sveiflurnar voru miklar í 2. leikhluta, FSu byrjaði á 2-13 skorpu sem Höttur svaraði með 8-0 áhlaupi. FSu skoraði þá sex stig í röð og hafði þá tíu stiga forskot, 31-41, en heimamenn komust þá aftur í gírinn og svöruðu með tólf stigum í röð. Staðan í hálfleik var 43-44.
Höttur náði fjögurra stiga forystu undir lok 3. leikhluta 62-58 og bætti svo við hana með því að skora átta fyrstu stigin í 4. leikhluta. Selfyssingar sáu að við svo búið yrði ekki lengur unað og spýttu í lófana. FSu jafnaði 74-74 þegar fjórar og hálf mínúta voru eftir af leiknum.
Ari Gylfason reyndist svo þyngdar sinnar virði í gulli undir lokin því hann skoraði tíu síðustu stig FSu-liðsins en sigurkarfan leit dagsins ljós þegar ein sekúnda var eftir af leiknum, 85-87.
Collin Pryor var besti maður vallarins með frábært framlag, 22 stig og 20 fráköst. Ari Gylfason skoraði 21 stig, Hlynur Hreinsson 18, Daði Berg Grétarsson 11, Svavar Ingi Stefánsson 8 og Erlendur Ágúst Stefánsson 7.
Fyrri greinBasti „ennþá bestur“
Næsta greinHelgi gefur kost á sér áfram