Þór Þorlákshöfn átti ekki góða ferð til Reykjavíkur í kvöld þar sem liðið tapaði fyrir ÍR í Domino’s-deild karla í körfubolta, 74-72.
Þórsarar byrjuðu ekki vel í leiknum og ÍR leiddi í leikhléi, 43-33. Þriðji leikhlutinn var hins vegar í þinglýstri eigu Þórsara sem náðu að minnka muninn í eitt stig, 55-54.
Síðasti fjórðungurinn var hnífjafn og æsispennandi. Staðan var 69-67 þegar lokamínútan rann upp og ÍR-ingar settu þá þriggja stiga körfu í andlitið á Þórsurum, 72-67. Liðin skiptust svo á að setja niður vítaskot áður en Maciej Baginski minnkaði muninn niður í tvö stig, 74-72, þegar ellefu sekúndur voru eftir. ÍR-ingar misstu boltann í kjölfarið þannig að Maciej fékk annað tækifæri á lokasekúndunni en skot hans fyrir utan þriggja stiga línuna geigaði.
Þórsarar eru nú í 7. sæti deildarinnar með 8 stig en ÍR er áfram í fallsæti, 11. sætinu, með 6 stig.
Tölfræði Þórs: Maciej Stanislav Baginski 22 stig/6 fráköst, Emil Karel Einarsson 18 stig, Tobin Carberry 18 stig/9 fráköst, Grétar Ingi Erlendsson 6 stig, Ólafur Helgi Jónsson 4 stig/3 varin skot, Davíð Arnar Ágústsson 2 stig/5 fráköst, Þorsteinn Már Ragnarsson 2 stig.