Selfyssingar töpuðu naumlega fyrir FH á útivelli í Olísdeild karla í handbolta í kvöld, 28-27.
Selfoss byrjaði leikinn vel og náði strax fjögurra marka forskoti en FH skoraði aðeins fjögur mörk á fyrstu tuttugu mínútum leiksins. Heimamenn tóku á sig rögg undir lok fyrri hálfleiks og náðu að jafna leikinn og staðan var 11-11 í hálfleik.
FH hafði yfirhöndina stærstan hluta seinni hálfleiks og náði mest fjögurra marka forskoti. Selfoss minnkaði muninn í eitt mark þegar fimm mínútur voru eftir en nær komust Íslandsmeistararnir ekki og FH fagnaði naumum sigri.
Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 8/1 mörk, Hergeir Grímsson skoraði 7/3 og var sömuleiðis sterkur í vörninni. Alexander Már Egan og Ragnar Jóhannsson skoruðu báðir 4 mörk, Nökkvi Dan Elliðason 2, Magnús Öder Einarsson 1 og Tryggvi Þórisson 1.
Vilius Rasimas varði 16/1 skot í marki Selfoss og var með 36% markvörslu.
Selfoss er í 5. sæti deildarinnar með 16 stig en FH er í 2. sæti með 21 stig. Selfoss á tvo erfiða leiki fyrir höndum á næstu dögum, gegn ÍR á heimavelli á fimmtudag og útileik gegn ÍBV næstkomandi sunnudag.
Meiðslavandræði Selfyssinga jukust enn frekar í kvöld, en Atli Ævar Ingólfsson meiddist í upphitun og gat ekki tekið þátt í leiknum gegn FH.