FSu er enn án sigurs í 1. deild karla í körfubolta en liðið tapaði 74-76 gegn Hetti í spennandi leik á Selfossi í kvöld.
FSu var á tánum í upphafi og skoraði fyrstu átta stig leiksins. Heimamenn komust í 17-11 en Höttur jafnaði 17-17 og staðan var 23-19 að loknum fyrsta leikhluta eftir að Kjartan Kjartansson hafði lokað honum með tveimur þriggja stiga körfum fyrir FSu.
Annar leikhluti var jafn og lítið skorað en staðan í hálfleik var 37-35, FSu í vil.
Seinni hálfleikur var spennandi og fjörugur en í þriðja leikhluta skoruðu bæði lið 27 stig. FSu skoraði aðeins fjögur stig innan teigs í þriðja leikhluta en á milli þess sem þristarnir flugu þá fóru menn á vítalínuna. FSu náði tíu stiga forskoti í leikhlutanum, 56-46, en Höttur kom til baka og minnkaði muninn í tvö stig, 64-62, áður en þriðja leikhluta lauk.
Síðasti fjórðungurinn var lélegur hjá FSu og liðið skoraði ekki fyrstu fjórar mínúturnar. Á meðan settu Hattarmenn tíu stig og leiddu 64-72. FSu náði ekki að svara fyrir sig fyrr en undir lokin en Orri Jónsson jafnaði 74-74 á lokamínútunni. Boltinn lak niður hjá Hetti í síðustu sókn liðsins 74-76 og FSu fékk sex sekúndur til að skora. Það tókst ekki en Bjarni Bjarnason fékk boltann og reyndi þriggja stiga skot úr erfiðu færi sem geigaði.
Tölfræði FSu: Kjartan Atli Kjartansson 28/7 fráköst, Sæmundur Valdimarsson 14/4 fráköst, Bjarni Bjarnason 13/10 fráköst, Orri Jónsson 9/4 fráköst/5 stoðsendingar, Birkir Víðisson 5/4 fráköst, Svavar Stefánsson 3, Þorkell Bjarnason 2/7 fráköst.
FSu tekur á móti Skallagrím í næsta leik, á föstudagskvöld.