Þór Þorlákshöfn tapaði naumlega fyrir Íslandsmeisturum KR þegar liðin mættust í úrvalsdeild karla í körfubolta í Þorlákshöfn í kvöld, 74-76.
Gestirnir byrjuðu mun betur í leiknum og leiddu 9-25 eftir fyrsta leikhluta. Þórsarar réttu sinn hlut í 2. leikhluta og staðan í hálfleik var 29-39. Þórsarar nálguðust enn frekar í 3. leikhluta og í upphafi þess fjórða náðu þeir að jafna, 60-60.
Lokakaflinn var æsispennandi og þegar um mínúta var til leiksloka var staðan jöfn, 70-70. KR-ingar skoruðu hins vegar næstu fjögur stigin og voru skrefinu á undan á lokasekúndunum.
Þórsarar eru áfram í 8. sæti deildarinnar með 12 stig en KR er í 5. sæti með 18 stig.
Tölfræði Þórs: Halldór Garðar Hermannsson 16, Jerome Frink 14/12 fráköst, Marko Bakovic 14/13 fráköst, Sebastian Eneo Mignani 9/5 stoðsendingar, Emil Karel Einarsson 8, Dino Butorac 6, Davíð Arnar Ágústsson 6, Ragnar Örn Bragason 1, Styrmir Snær Þrastarson 4 fráköst.