Naumt tap gegn toppliðinu

Álfhildur Þorsteinsdóttir skoraði 24 stig og tók 17 fráköst. Ljósmynd/Benóný Þórhallsson

Kvennalið Hamars tapaði naumlega fyrir Keflavík-B í 1. deildinni í körfubolta í Keflavík í dag.

Leikurinn var jafn allan tímann en Keflavík leiddi í hálfleik, 32-26, eftir að hafa náð ágætu áhlaupi í 2. leikhluta.

Keflavík hafði frumkvæðið stærstan hluta síðari hálfleiks en Hamar var aldrei langt undan. Þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir var staðan 60-50 en Hamar skoraði þá átta stig í röð og minnkaði muninn í tvö stig. Keflavík hélt aftur af gestunum á lokamínútunni og vann að lokum 62-58.

Keflavík er í toppsæti deildarinnar með 10 stig en Hamar er á botninum án stiga.

Tölfræði Hamars: Álfhildur Þorsteinsdóttir 24/17 fráköst, Jenný Harðardóttir 9/8 fráköst, Dagrún Inga Jónsdóttir 9, Helga Sóley Heiðarsdóttir 6/7 fráköst, Perla María Karlsdóttir 5, Rannveig Reynisdóttir 3/5 fráköst, Gígja Marín Þorsteinsdóttir 2, Una Bóel Jónsdóttir 0, Þórunn Bjarnadóttir 0.

Fyrri greinVeðrið hefur áhrif á Strætó á landsbyggðinni
Næsta greinGul viðvörun um allt land: Varasamt að vera á ferðinni