Naumt tap hjá Árborg

Árborg tapaði naumlega í öðrum leik sínum í úrslitakeppni 2. deildar karla í körfubolta þegar liðið mætti Íþróttafélagi Grindavíkur í Iðu í morgun. Lokatölur voru 73-77.

Leikurinn var jafn allan tímann en staðan í hálfleik var 40-39 fyrir Árborg. Grindvíkingar sigu framúr í seinni hálfleik en munurinn var lítill. Þegar átta sekúndur voru eftir höfðu Árborgarar boltann í stöðunni 73-75 en misstu hann á ótrúlegan hátt og Grindvíkingar skoruðu síðustu stigin.

Bragi Bjarnason var langstigahæstur hjá Árborg með 22 stig. Arnþór Tryggvason átti einnig ágætan leik, tók 12 fráköst og skoraði 6 stig.

Dómarar leiksins voru mjög flautuglaðir og lentu leikmenn beggja liða í villuvandræðum, þrátt fyrir litla hörku í leiknum.

Síðasti leikur Árborgar í riðlakeppninni er kl. 17 í dag í Iðu þegar liðið leikur gegn Álftanesi.

Fyrri greinSeinni tónleikar Hreppamanna í kvöld
Næsta greinLaugdælir í góðri stöðu