Naumt tap hjá Mílan

Mílan tapaði með einu marki, 24-25, þegar KR kom í heimsókn í 1. deild karla í handbolta í dag. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann.

Gestirnir skoruðu fyrstu tvö mörk leiksins en Mílan komst yfir, 5-3, eftir að Ársæll Einar Ársælsson raðaði inn mörkum í upphafi leiks. KR jafnaði 6-6 og eftir það var jafnt á flestum tölum. Mílan náði aftur tveggja marka forystu undir lok fyrri hálfleiks en KR skoraði síðasta mark hálfleiksins og staðan var 12-11 í leikhléi.

Síðari hálfleikur var hnífjafn framan af og það var ekki fyrr en á 47. mínútu leiksins að KR náði tveggja marka forskoti, 19-21. Mílan gekk illa að nýta sóknir sínar á lokakaflanum og KR-ingar voru skrefinu á undan allt til leiksloka. Mílan skoraði síðasta mark leiksins þegar nokkrar sekúndur voru eftir, 24-25.

Ársæll Einar skoraði 12/3 mörk, Atli Kristinsson skoraði 5, Óskar Kúld, Eyþór Jónsson og Magnús Már Magnússon skoruðu allir 2 mörk og Ívar Grétarsson 1.

Stefán Ármann Þórðarson og Ástgeir Sigmarsson vörðu hvor sín 6 skotin í marki Mílan. Hlutfall varinna skota var svipað hjá þeim, Stefán varði 33,3% þeirra skota sem hann þurfti að glíma við og Ástgeir 31,5%.

Mílan er í 7. sæti deildarinnar með 5 stig en KR, sem er í 6. sætinu, hefur nú 11 stig.

Fyrri greinJólakonfekt Vanilla lavender
Næsta greinNeitar að kvitta upp á landskipti vegna Syðri-Steinsmýri