Naumt tap í Njarðvík

Jordan Semple. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn tapaði naumlega gegn Njarðvíkingum á útivelli þegar keppni hófst í úrvalsdeild karla í körfubolta eftir jólafrí, 106-104.

Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann. Þór skoraði fyrstu sjö stig leiksins en Njarðvík jafnaði 20-20 og staðan var 25-23 að loknum 1. leikhluta. Njarðvík leiddi nær allan 2. leikhluta en Þór komst sjö stigum yfir undir lok hans, 43-50. Njarðvíkingar kláruðu hins vegar fyrri hálfleikinn með áhlaupi og staðan var 53-53 í hálfleik.

Seinni hálfleikur fór fjörlega af stað en undir lok 3. leikhluta náði Njarðvík tólf stiga forskoti, 82-70, en Þórsarar svöruðu fyrir sig og minnkuðu muninn í 88-83 í upphafi 4. leikhluta. Á næstu mínútum stýrðu Njarðvíkingar umferðinni en þegar ein og hálf mínúta var eftir komst Þór yfir, 101-102. Njarðvíkingar hittu betur á lokakaflanum og sigruðu með tveggja stiga mun en Þórsarar áttu síðustu sókn leiksins sem fór í súginn.

Nick Tomsick var stigahæstur Þórsara með 32 stig, Jordan Semple skoraði 23 og tók 11 fráköst og nýr leikmaður Þórsara, Mustapha Harod skoraði sömuleiði 23 stig í sínum fyrsta leik fyrir félagið.

Þórsarar eru í 7. sæti deildarinnar með 12 stig en Njarðvík er í 3. sæti með 14 stig.

Njarðvík-Þór Þ. 106-104 (25-23, 28-30, 35-26, 18-25)
Tölfræði Þórs: Nikolas Tomsick 32/6 stoðsendingar, Mustapha Jahhad Heron 23, Jordan Semple 23/11 fráköst, Ólafur Björn Gunnlaugsson 11/4 fráköst, Justas Tamulis 6/4 fráköst, Emil Karel Einarsson 6/6 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 3.

Fyrri greinHætt að renna framhjá flóðgáttinni
Næsta greinU-beygjan reyndist mikið gæfuspor