Naumt tap í slagnum um 4. sætið

Perla Ruth Albertsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tók á móti ÍR í baráttunni um 4. sætið í úrvalsdeild kvenna í handbolta í dag. Eftir spennandi leik höfðu gestirnir betur, 19-20.

ÍR komst í 1-5 og hélt forystunni allan fyrri hálfleikinn. Staðan var 10-13 í leikhléi.

Selfoss byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og jafnaði 15-15 eftir þrettán mínútna leik. ÍR var skrefinu á undan í kjölfarið en Selfyssingar náðu að jafna 19-19 þegar tvær og hálf mínúta voru eftir af leiknum.

Liðunum voru mislagðar hendur á lokakaflanum, ÍR skoraði sigurmark leiksins þegar rúm ein og hálf mínúta voru eftir en fleiri urðu mörkin ekki. Selfoss átti síðustu sókn leiksins en hún rann út í sandinn og ÍR fagnaði eins marks sigri.

ÍR fór því upp fyrir Selfoss í 4. sætið með 16 stig en Selfoss er í 5. sæti með 15 stig.

Perla Ruth Albertsdóttir var markahæst Selfyssinga með 8/1 mörk og 100% skotnýtingu. Harpa Valey Gylfadóttir skoraði 5 mörk, Katla María Magnúsdóttir 3, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 2 og Hulda Dís Þrastardóttir 1. Ágústa Tanja Jóhannsdóttir varði 10 skot í marki Selfoss og var með 33% markvörslu.

Fyrri greinFrábært framhjáhald hjá Gnúpverjum
Næsta greinÞrenna Bjarna sökkti Herði