Hamar/Þór varð af mikilvægum stigum þegar liðið tapaði gegn Ármanni í toppbaráttu 1. deildar kvenna í körfubolta í Laugardalshöllinni í dag.
Leikurinn var jafn allan tímann og liðin skiptust á um að hafa undirtökin. Ármann leiddi í leikhléi, 44-36, en Hamar/Þór kom sér strax aftur inn í leikinn í upphafi seinni hálfleiks og komst yfir, 49-50. Eftir það var leikurinn í járnum og úrslitin réðust á síðustu sekúndunum.
Lokamínútan var æsispennandi, Hamar/Þór jafnaði 75-75 þegar 26 sekúndur voru eftir en Ármenningar komust aftur yfir úr vítaskoti þegar 17 sekúndur voru eftir. Þeim sunnlensku tókst ekki að skora úr síðustu sókn leiksins og Ármann fagnaði 76-75 sigri.
Aniya Thomas var stigahæst í liði Hamars/Þórs með 22 stig, Emma Hrönn Hákonardóttir skoraði 19, Hildur Gunnsteinsdóttr 16, Helga María Janusdóttir 9, Kristrún Ríkey Ólafsdóttir 7 auk þess sem hún tók 10 fráköst og Gígja Rut Gautadóttir skoraði 2 stig.
Hamar/Þór er í 4. sæti deildarinnar með 8 stig en Ármann er í 2. sæti með 10 stig.