FSu lagði Leikni í kvöld í 1. deild karla í körfubolta, 74-72. FSu lék án útlendings í leiknum en Richard Field er hættur með liðinu.
Leikurinn var jafn framan af en FSu skreið framúr þegar leið að leikhléi. Staðan var 43-35 í hálfleik.
Leiknismenn voru ekki á því að hætta og þeir komu til baka í 3. leikhluta. Staðan var 53-50 að honum loknum og síðasti fjórðungurinn varð æsispennandi.
FSu leiddi 67-56 þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum en þá tóku Leiknismenn á sprett og minnkuðu muninn í tvö stig, 68-66, þegar rúm mínúta var eftir af leiknum.
Liðin skiptust á að skora þangað til Leiknir jafnaði, 72-72, og 24 sekúndur eftir á klukkunni. Valur Valsson fékk tvö vítaskot í næstu sókn FSu, setti þau bæði niður og tryggði FSu sigur. Leiknir reyndi flautukörfu vel fyrir utan þriggja stiga línuna á en Guðmundur Gunnarsson varði skotið.
Valur Valsson skoraði 26 stig fyrir FSu og Sæmundur Valdimarsson kom næstur honum með 19 stig. Maður leiksins var hins vegar Sigurbjörn Jónsson sem barðist vel undir körfunum og tók 23 fráköst.
Richard Field var ekki með FSu í kvöld en hann hefur leikið sinn síðasta leik fyrir félagið. Richard fékk tilboð frá tékkneska liðinu BC Kolín og hélt til Tékklands milli jóla og nýárs.