Keflvíkingar standa betur að vígi í viðureigninni við Selfoss í úrslitakeppni 1. deildar kvenna í knattspyrnu að loknum fyrri leik liðanna. Keflavík sigraði 3-2 í dag.
Fyrri hálfleikur byrjaði fjörlega en strax á 2. mínútu kom Guðmunda Brynja Óladóttir Selfyssingum yfir. Keflvíkingar svöruðu hins vegar fyrir sig með tveimur mörkum á stuttum tíma en forysta þeirra var skammvinn því Katrín Ýr Friðgeirsdóttir jafnaði metin stuttu síðar og eftir 24. mínútna leik var staðan 2-2 og þannig hélst hún fram að leikhléi.
Baráttan hélt áfram í síðari hálfleik en sigurmark Keflavíkur kom þegar rúmar fimmtán mínútur voru eftir af leiknum og þar við sat en Selfoss í ágætum málum með tvö mörk á útivelli.
Seinni leikur liðanna er á Selfossi á þriðjudag kl. 17:30 og ræður hann úrslitum um það hvort liðið spilar í Pepsi-deildinni á næsta ári.