Selfyssingar eru komnir í undanúrslit Íslandsmótsins í handknattleik eftir að hafa sópað ÍR-ingum úr keppni með 28-29 sigri á útivelli í kvöld, þegar liðin mættust í annað sinn.
Selfoss vann því einvígið 2-0, en tæpara mátti það ekki standa því ÍR var yfir lengst af í kvöld og annan leikinn í röð hefðu ÍR-ingar getað tryggt sér framlengingu með síðasta skoti leiksins. Að þessu sinni fór boltinn í stöngina og út á lokasekúndunni.
ÍR leiddi nánast allan leikinn
Selfoss komst í 0-1 í kvöld en eftir það tóku ÍR-ingar frumkvæðið og leiddu nánast allan leikinn. Staðan var 18-16 í leikhléi, eftir að Selfoss hafði skoraði síðustu tvö mörkin í fyrri hálfleik.
Á 35. mínútu jöfnuðu Selfyssingar 20-20 en þá tóku heimamenn aftur við sér og voru skrefinu á undan eftir það.
Selfoss fékk enga markvörslu í leiknum í kvöld og Pawel Kiepulski varði aðeins fjögur skot. Hann varði þó skotin sem skiptu máli því þrjú þeirra voru varin á síðustu fjórum mínútunum og á þeim kafla skriðu Selfyssingar framúr, 27-29. Lokamínúturnar voru skrautlegar en sóknarnýting liðanna var léleg og eins og fyrr segir var ÍR hársbreidd frá því að jafna á lokasekúndunum.
Haukur markahæstur
Haukur Þrastarson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Hergeir Grímsson skoraði 6/3, Árni Steinn Steinþórsson 4, Elvar Örn Jónsson 4/1, Nökkvi Dan Elliðason, Atli Ævar Ingólfsson og Guðni Ingvarsson skoruðu allir 2 mörk og þeir Guðjón Baldur Ómarsson og Pawel Kiepulski skoruðu sitt markið hvor.
Pawel varði 4 skot í leiknum og var með 27% markvörslu og Sölvi ÓIafsson varði 2 skot og var með 10% markvörslu.