Naumur sigur Þórsara á heimavelli

Morten Bulow. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn er í 2. sæti úrvalsdeildar karla í körfubolta eftir nauman sigur á botnliði Hauka í Þorlákshöfn í kvöld.

Haukar skoruðu fimm fyrstu stigin en Þórsarar komust svo í 16-8. Munurinn var tíu stig eftir 1. leikhluta, 33-23. Haukar svöruðu fyrir sig í 2. leikhluta og jöfnuðu með síðustu körfu fyrri hálfleiks, 48-48.

Það var lítið skorað í 3. leikhluta en Þór gerði 9-2 áhlaup á lokakafla hans og þegar síðasti fjórðungurinn hófst var staðan 66-60. Haukar önduðu niður um hálsmálið á Þórsurum allan 4. leikhluta og skoruðu fimm síðustu stig leiksins en það dugði ekki til. Þór hélt sjó og sigraði 82-81.

Jordan Semple var stiga- og framlagshæstur Þórsara í kvöld með 20 stig og 13 fráköst.

Þór er með 8 stig í 2. sæti deildarinnar en Haukar á botninum án stiga eftir fimm umferðir.

Tölfræði Þórs: Jordan Semple 20/13 fráköst/3 varin skot, Morten Bulow 17/7 fráköst, Marcus Brown 14, Marreon Jackson 11/6 stoðsendingar, Ólafur Björn Gunnlaugsson 10/4 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 8, Emil Karel Einarsson 2, Justas Tamulis 3 stoðsendingar/1 frákast, Ragnar Örn Bragason 2 fráköst.

Fyrri greinHamar fékk á sig 75 stig í fyrri hálfleik
Næsta greinSelfoss flaug í 16-liða úrslitin