Selfoss og Grótta skildu jöfn í A-deild Lengjubikars karla í Kórnum í dag, 1-1. Ibrahima Ndiaye skoraði mark Selfoss í sínum fyrsta leik.
Bæði mörk leiksins komu á fyrstu tíu mínútunum. Eftir sex mínútna leik unnu Selfyssingar boltann á miðjunni, Babacar Sarr átti skot að marki sem markvörður Gróttu hélt ekki og Ndiaye var mættur til að pota boltanum í netið. Góð byrjun hjá Senegölunum sem voru að spila sinn fyrsta leik fyrir liðið.
Strax í næstu sókn jöfnuðu Gróttumenn þegar Sigurður Eyberg Guðlaugsson braut klaufalega af sér innan vítateigs. Grótta fékk vítaspyrnu og jafnaði þó að Jóhann Ólafur hafi verið með fingurgómana á knettinum í marki Selfoss.
Þar með var fjörið búið og leikurinn tíðindalítill það sem eftir var. Viðar Kjartansson fékk besta færi Selfyssinga þegar hann slapp einn innfyrir en lét verja frá sér úr dauðafæri þegar um 15 mínútur voru eftir af leiknum.